Háskólinn á Hólum hlýtur næst stærstu úthlutunina úr samstarfssjóði háskólanna

Þann 12. janúar síðastliðinn var tilkynnt um úthlutun úr samstarfssjóði íslenskra háskóla. Það var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem setti þennan sjóð á laggirnar síðastliðið haust. Um var að ræða tveggja milljarða króna sjóð sem ætlað er að ýta undir öflugt
samstarf allra háskóla á Íslandi. Úthlutað skyldi úr sjóðnum í tveimur umferðum með einum milljarði í hvorri umferð. Umsóknarfrestur í fyrri umferð var í desember 2022. Alls bárust 48 umsóknir í sjóðinn að upphæð 2.858 m.kr. í fyrri umferðinni og áttu allir sjö háskólarnir á Íslandi umsóknir í sjóðnum.
Fyrirkomulagið var með þeim hætti að í umsóknum til samstarfssjóðsins er einn háskóli skráður sem aðalumsækjandi og einn eða fleiri háskólar sem meðumsækjendur.
Háskólinn á Hólum sendi inn sex umsóknir sem aðalumsækjandi og var samstarfsaðili í öðrum ellefu umsóknum. Þegar úthlutun úr samstarfssjóði háskólanna fór fram að lokinni þessari fyrri umferð umsókna, hafði starfsfólk Háskólans á Hólum góða ástæðutil að fagna niðurstöðunum. Háskólinn á Hólum, sem er minnsti háskólinn á landinu, fékk næst hæstu upphæðina sem aðalumsækjandi.

Verkefnin sem um ræðir eru:
Sjálfbært eldi, ræktun og nýting lagarlífvera á Íslandi: Uppbygging náms og rannsókna - kr. 57.800.000
Meðumsækjendur: Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólasetur Vestfjarða, Hafrannsóknastofnun, Matís og Náttúruminjasafn Íslands.

Akademía íslenska hestsins - kr. 21.900.000
Meðumsækjendur: Landbúnaðarháskóli Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands.

Sameiginleg námslína í ferðamálafræði – kr. 21.400.000
Meðumsækjendur: Háskóli Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar.