Háskólinn á Hólum og Háskóli Íslands, háskólasamstæða fýsilegasti kosturinn

Undanfarna mánuði hefur stýrihópur, skipaður fulltrúum Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum, unnið að því að meta fýsilega kosti um aukið samstarf eða sameiningu háskólanna tveggja.

Í því skyni voru fjórar mögulegar útfærslur greindar varðandi aukið samstarf eða sameiningu: Aukið formlegt samstarf, óbreytt samstarf, sameining að fullu og ný háskólasamstæða.

Meginniðurstaða hópsins er sú að háskólasamstæða sé fýsilegasti kosturinn. Stýrihópurinn leggur því til við háskólaráð beggja skóla að hefja undirbúning stofnunar nýrrar háskólasamstæðu. Markmið hennar eru tilgreind í nýrri skýrslu, Mat á fýsileika aukins samstarfs eða sameiningar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum, um niðurstöður fýsileikagreiningar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum en öllum aðilum er það ljóst að ekki eigi að auka yfirbyggingu eða flækja stjórnskipulag með nýrri samstæðu.

„Háskólar á Íslandi njóta mikils trausts sem byggir á vinnu þeirra í þágu samfélagsins, í kennslu, rannsóknum og nýsköpun. Fyrir háskólakerfið er mikilvægt að háskólarnir leggi saman kraftana, efli rannsóknastarf, gæði menntunar og styrki tengslin við atvinnulíf og samfélög á landsbyggðinni,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.

“Það er mikilvægt fyrir Ísland að háskólakerfið sé öflugt og í stöðugri þróun til að vera vel í stakk búið til að takast á við áskoranir samtímans. Sameiginlega munu háskólarnir geta boðið upp á fjölbreyttara nám og eflt þátttöku sína í þverfaglegum alþjóðlegum rannsóknum. Öflug háskólastarfsemi um allt land sem m.a. byggir á auðlindum og sérstöðu svæðanna eflir nýsköpun og þar með seiglu byggðanna og samkeppnishæfni Íslands” segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor HH.

Í gær samþykkti háskólaráð Háskólans á Hólum tillögu um myndun háskólasamstæðu HÍ og HH. Til stendur að háskólaráð HÍ fjalli um tillöguna á fundi sínum í byrjun febrúar. Að því gefnu að háskólaráð HÍ samþykki hana mun vinna starfshópa hefjast fljótlega, um hvern meginþátt samstæðunnar. Þessir þættir eru allir tilgreindir í skýrslunni, og er sömu sögu að segja um alla verkþætti og en stutt yfirlit um þá er að finna í skýrslunni.

Að mati stýrihópsins er ljóst að samstæða af þeim toga sem lýst er í skýrslunni yrði umbylting í skipulagi háskólastarfs á Íslandi og mikill ávinningur fyrir íslenskt háskólasamfélag. Stýrihópurinn leggur áherslu á að ný háskólasamstæða efli háskólastarf á öllu landinu, styrki sókn á alþjóðlegum vettvangi og verði eftirsóknarverður kostur fyrir samstarf annarra háskóla og rannsóknastofnana til framtíðar.