Kallað eftir hrossum sem eru tilbúin í gangsetningu

Háskólinn á Hólum hefur um árabil átt í góðu samstarfi við hrossaræktendur um allt land um að senda skólanum hross til tamningar og þjálfunar. Nú leitar skólinn eftir hrossum sem eru tilbúin til gangsetningar. Um er að ræða vinnu á haustönn 2023, tímabilið er frá 24. ágúst til 27. október (með fyrirvara um ófyrirséðar breytingar). Tekið verður á móti hrossunum þann 24. ágúst á milli kl. 13 og 15. Það eru 3ja árs nemar við Hestafræðideild skólans sem takast á við verkefnið undir handleiðslu reiðkennara skólans.

Kallað er eftir hrossum í námskeiðið „Þjálfun IV“, á ofangreindu tímabili (24. ágúst til 27. október 2023):

Úr námskeiðslýsingu: „Fjallað er ítarlega um þjálfun unghrossa í framhaldi af frumtamningastigi. Áhersla er lögð á kerfisbundið mat og þjálfunaráætlun byggða á mismunandi hestgerðum og þjálfunarstigi, m.a. ganglagi, geðslagi, líkamlegum styrk og fóðurástandi. Áhersla er lögð á hestvænar aðferðir, frumkvæði og skipulögð vinnubrögð. Nemendur fá þjálfun í að sýna og gera grein fyrir þjálfun hrossanna. Nemendur vinna með hross sem nýlega hafa lokið frumtamningastigi. Hér er áhersla lögð á gangsetningu og auknar kröfur um samspil ábendinga, taumsamband, bætt líkamsform og þjálfun gangtegunda. Heildstæð úttekt á sköpulagi, reiðhestskostum, þjálfunarstigi og útliti er lögð til grundvallar fyrir einstaklingsmiðaða þjálfunaráætlun hrossanna. Áhersla er lögð á markvissa uppbyggingu hrossanna, s.s. varðandi svörun ábendinga, líkamlegan styrk og jafnvægi í hreyfingum.“
Forkröfur: Verkefnið hentar öllum hrossum, óháð ganglagi en að lágmarki þurfa hrossin að vera frumtamin samkvæmt reglum Háskólans á Hólum eða meira tamin. Aðeins verður tekið á móti hrossum fæddum 2018 eða seinna. Hrossin þurfa að vera í góðu fóðurástandi, holdastig -3 til 3,5, á járnum og í þjálfun. Hafi hrossið ekki verið frumtamið við Hestafræðideild Háskólans á Hólum þarf að fylgja myndband af hrossinu í reið með umsókninni (vinsamlega látið fylgja Youtube eða Vimeo-hlekk).
Kostnaður: Gjald fyrir eitt hross yfir tímabilið (24. ágúst til 27. október) er kr. 115.000. Athugið að ekki er um virðisaukaskylda starfsemi að ræða og því ber gjaldið ekki virðisaukaskatt.

Í gjaldinu er innifalið uppihald fyrir hrossið yfir tímabilið, ein járning (ef þarf) og skoðun dýralæknis á tönnum og munni. Komi til þess að kalla þurfi til dýralækni til að sinna hrossinu (vegna slyss eða veikinda), ber eigandi ábyrgð á tilfallandi dýralæknakostnaði.
Þeir sem hafa áhuga á að koma hrossum að í námskeiðið Þjálfun IV á áðurnefndu tímabili, er viðkomandi bent á að leggja inn umsókn sem allra fyrst.

Skólinn áskilur sér rétt til að velja hross sem talin eru hentugust fyrir umrætt verkefni.

Í umsókninni þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram:

  • IS-númer hestsins
  • Í hversu marga mánuði hesturinn hefur verið taminn
  • Ef hesturinn hefur ekki verið frumtaminn við hestafræðideild Háskólans á Hólum þarf stutt myndband af hestinum í reið að fylgja umsókninni (Youtube eða Vimeo hlekkur).

Umsókn sendist á thorsteinn@holar.is