Karfan er tóm.
- Háskólinn
- Starfsfólk
- Inspera
- Nám
- Ferðamáladeild
- Fiskeldis- og fiskalíffræðideild
- Hestafræðideild
- Hagnýtar upplýsingar
- Rannsóknir
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Háskólinn á Hólum hefur um árabil átt gott samstarf við ræktendur um allt land, um að senda skólanum hross til tamningar og þjálfunar. Það eru 3. árs nemar við Hestafræðideild sem takast á við verkefnið, undir handleiðslu reiðkennara skólans.
Nú er leitað eftir hrossum í vinnuna á haustönn 2021. Tímabilið stendur frá 30. ágúst (hrossin komi þann dag, á milli kl. 13 og 15) til 29. október (með fyrirvara um ófyrirséðar breytingar).
Kallað er eftir hrossum í námskeiðið „Þjálfun IV“, á ofangreindu tímabili (30.ágúst til 29.október):
Úr námskeiðslýsingu: „Fjallað er ítarlega um þjálfun unghrossa í framhaldi af frumtamningastigi. Áhersla er lögð á kerfisbundið mat og þjálfunaráætlun byggða á mismunandi hestgerðum og þjálfunarstigi, m.a. ganglagi, geðslagi, líkamlegum styrk og fóðurástandi. Áhersla er lögð á hestvænar aðferðir, frumkvæði og skipulögð vinnubrögð. Nemendur fá þjálfun í að sýna og gera grein fyrir þjálfun hrossanna. Nemendur vinna með hross sem nýlega hefur lokið frumtamningastigi. Hér er áhersla lögð á gangsetningu og auknar kröfur um samspil ábendinga, taumsamband, bætt líkamsform og þjálfun gangtegunda. Heildstæð úttekt á sköpulagi, reiðhestskostum, þjálfunarstigi og útliti er lögð til grundvallar fyrir einstaklingsmiðaða þjálfunaráætlun hrossanna. Áhersla er lögð á markvissa uppbyggingu hrossanna, s.s. varðandi svörun ábendinga, líkamlegan styrk og jafnvægi í hreyfingum.“
Forkröfur: Aðeins verður tekið á móti hrossum fæddum 2016 eða fyrr. Þau komi frumtamin samkvæmt reglugerð Hólaskóla eða meira tamin. Hrossin þurfa að vera í góðu fóðurástandi, holdastig 3 til 3,5 á járnum og í þjálfun. Hafi hrossið ekki verið frumtamið á Hólum þarf að fylgja myndband af hrossinu í reið með umsókninni (Láta fylgja Youtube eða vimeo-hlekk).
Kostnaður - fyrir allt viðkomandi tímabil (ber ekki virðisaukaskatt), er kr. 75.000.
Innifalið: Allt uppihald, ein járning (ef við á)og skoðun dýralæknis á tönnum og munni. Komi til þess að kalla þurfi til dýralækni til að sinna trippinu (vegna slyss eða veikinda), ber eigandi ábyrgð á greiðslu kostnaðarins.
Þeim sem hafa hug á að koma hrossum að í Þjálfun IV á áðurnefndu tímabili, er bent á að leggja inn umsókn sem allra fyrst.
Umsókn þarf að innihalda:
• ÍS-númer,
• í umsókn þarf að koma fram hversu marga mánuði hrossið hefur verið tamið,
• stutt myndband af hestinum í reið,
Upplýsingar sendist sem fyrst á netfangið mette@holar.is
Aðeins er um 10 hross að ræða og áskilur skólinn sér rétt til að velja úr hross sem eru talin hentugust í umrætt verkefni fyrir nemendurna.