Kennsluakademía opinberu háskólanna stofnuð með aðild Háskólans á Hólum

Kennsluakademía opinberu háskólanna var stofnuð 1. nóvember sl. með athöfn í Háskóla Íslands. Alls bárust 20 umsóknir. Að undangengnu ströngu umsóknarferli voru 11 umsóknir taldar uppfylla viðmið um inngöngu í Kennsluakademíuna. Meðal þeirra sem fengu inngöngu er Dr. Jessica Aquino, Ph.D. í auðlindum og þróun samfélaga og lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum.

Hlutverk Kennsluakademíu opinberu háskólanna er að efla samtal um kennslu og kennsluþróun innan og milli háskóla, styðja við öflugt náms- og kennslusamfélag og hvetja til kennsluþróunar. Akademían er sett á laggirnar með stuðningi og hvatningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og aðild allra opinberu háskólanna; Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Sæti í Kennsluakademíunni er viðurkenning sem hlotnast þeim kennurum sem hafa sinnt kennslu sinni og kennsluþróun af einstakri fagmennsku og fræðimennsku og eru reiðubúnir að deila reynslu sinni með samstarfsfólki sínu og fræðasamfélaginu.

Háskólinn á Hólum er stoltur af því að eiga fulltrúa í þessum fyrsta hópi akademíumeðlima og væntir mikils af þessum nýja vettvangi. Við óskum Jessicu innilega til hamingju með hennar framgang.