Knapaþyngd og áhrif hennar á líkamlegt álag hesta

Rannsóknarhópurinn á Hólum október 2022. Frá vinstri Guðrún J. Stefánsdóttir, 
hesturinn Demantur f…
Rannsóknarhópurinn á Hólum október 2022. Frá vinstri Guðrún J. Stefánsdóttir,
hesturinn Demantur frá Syðra-Skörðugili og knapi hans Ingunn Ingólfsdóttir,
Guðrún Margrét Sigurðardóttir, Sveinn Ragnarsson, Anna Jansson,
Víkingur Gunnarsson, Johannes Amplatz, Ágúst Gestur Daníelsson og Denise Söderroos.

Hestafræðideild Háskólans á Hólum og sænski Landbúnaðarháskólinn í Uppsala (SLU) eiga sér langt og farsælt rannsóknarsamstarf. Doktorsverkefni Denise Söderroos er ein af þeim rannsóknum sem nú stendur yfir og fjallar um mat á burðargetu íslenska hestsins og áhrif af mismikilli knapaþyngd á líkamlegt álag.
Dagana 10.-16. október 2022 komu doktorsneminn og aðalleiðbeinandi hennar Anna Jansson til Hóla til að gera álagsmælingar á nokkrum hestum bæði á hlaupabretti og undir knapa úti á reiðvelli. Sambærilegar mælingar fóru einnig fram haustið 2021, en ákveðið var að bæta við fleiri hestum í rannsóknina.
Reiðprófið á vellinum fer þannig fram að einn knapi ríður hestunum á góðri milliferð á tölti (ca 20 km/klst) og þyngd knapans er síðan aukin með því að bæta við blýlóðum (á hnakkinn og knapann). Reiðprófið kallast stigvaxandi, þar sem þyngdin er aukin í hverju þrepi, byrjar sem 20% af líkamsþunga hestsins, síðan 25%, 30% og loks 35%. Á milli þrepanna líða ca 10 mín, á meðan tekið er blóðsýni úr hestinum og aukinni þyngd bætt við. Með hverja þyngd fer hesturinn um 600 m á vellinum, alltaf á sama hraðanum. Álagið er meðal annars metið með mælingum á púls meðan á reiðinni stendur og mjólkursýra er mæld eftir hvert þrep í reiðprófinu.
Hestarnir fara í gegnum dýralæknisskoðun fyrir álagsmælingarnar (hlaupabrettisprófið og reiðprófið) og einnig einum sólarhring eftir að þeim er lokið.
Markmiðin með rannsóknunum eru nokkur, í fyrsta lagi er verið að skoða hvernig mismunandi bygging á baki hestsins (mjótt bak í samanburði við breitt) hefur áhrif á hversu auðvelt honum er að bera knapa af mismikilli þyngd. Í öðru lagi er verið að þróa reiðpróf sem getur sagt til um hversu fljótt hestar þreytast undir knapa af mismikilli þyngd. Í þriðja lagi er verið að skoða hvort próf (test) á hlaupabretti þar sem hesturinn hleypur aðeins undir sjálfum sér á brokki endurspegli niðurstöðurnar úr reiðprófinu á reiðvellinum.

Sérstakar þakkir eru til fjölskyldunnar á Syðra-Skörðugili sem lánaði hesta í rannsóknina í haust og í fyrrahaust og til fjölskyldunnar á Berglandi sem lánaði hesta í fyrrahaust. Þökkum einnig Crossfit á Sauðárkróki sem lánaði okkur þyngingarvesti á knapann. Að lokum þökkum við öllum sem unnu við rannsóknina á einn eða annan hátt, ekki síst knöpunum sem voru Konráð Valur Sveinsson (2021) og Ingunn Ingólfsdóttir (2022), og dýralæknunum Guðrúnu Margréti Sigurðardóttur og Höskuldi Jenssyni.

Höf. Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir. Myndir eru frá höfundi.