Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda – nýtt verkefni

Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda (The Nordic Biodiversity Framework) er nýtt verkefni samstarfsvettvangsins BIODICE sem nýlega fékk styrk (um 31 mkr.) frá Norræna vinnuhópnum um líffræðilega fjölbreytni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Verkefnið er samstarf sérfræðinga frá Íslandi, Danmörku og Finnlandi. Verkefnisstjóri er Skúli Skúlason við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands og aðrir sem leiða verkefnið eru Katherine Richardson við Kaupmannahafnarháskóla, Danmörku og Hanna-Kaisa Lakka við Háskólann í Jyväskylä, Finnlandi (sjá nánar á www.biodice.is). 

Viðfangsefni verkefnisins er hrun á líffræðilegri fjölbreytni sem er eitt alvarlegasta vandamál okkar tíma. Kunming-Montreal samningurinn um líffræðilega fjölbreytni var samþykktur af flestum þjóðum heims, þ.m.t. Íslandi, árið 2022 á COP15 ráðstefnu samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Megintilgangur verkefnisins er að rannsaka stöðu og aðferðir Íslands, Danmerkur og Finnlands við innleiðingu samningsins og styðja við það ferli með faglegum greiningum og tillögum. Einnig verður komið á fót neti vísindamanna, sérfræðinga, stjórnvalda og hagsmunaaðila. Þetta verður gert með markvissri upplýsingaöflun ásamt formlegum vinnufundum og málþingum. Niðurstöðurnar munu nýtast stjórnvöldum við innleiðingu á Kunming-Montreal samningnum um líffræðilega fjölbreytni.