Ný bók um hestaviðburði - Landsmót hestamanna

Út er komin bókin Humans, Horses and Events Management, sem fjallar um hestaviðburði og samskipti manns og hests (e. human-horse relations). Bókin er gefin út af CABI Publisher og er sérstæð að tvennu leyti. Annars vegar er þetta fyrsta bók sinnar tegundar sem fjallar um hestaviðburði sérstaklega og hins vegar hefur hún þá sérstöðu í viðburðastjórnunarfræðum að fjalla um einn ákveðinn viðburð frá mörgum sjónarhornum.

Bókin byggir á viðamikilli rannsókn á Landsmóti hestamanna og inniheldur 17 kafla þar sem fjallað er um viðburðinn frá ólíkum sjónarhornum. Höfundar eru 19 talsins frá 5 þjóðlöndum. Í bókinni er fjallað um viðburðinn sjálfan, félagskerfi hestamennskunnar, íslenska hestinn og keppnisgreinar á Landsmóti. Fjallað er um stjórnun og stefnumótun viðburðar sem og samkeppnishæfni, markaðssetningu og staðarval. Rýnt er í með hvaða hætti hestaviðburðir hafa áhrif á ímynd svæða og landa og þær áskoranir sem felast í því að halda viðburði þar sem saman koma tvær tegundir; maður og hestur. Einnig er fjallað um upplifun gesta, sjálfboðaliða, velferð hesta sem og efnahagsleg og samfélagsleg áhrif viðburða og áhrif þeirra til lengri tíma litið. Landsmót hestamanna er borið saman við alþjóðlegan stórviðburð á sviði hestamennsku (Allteck FEI World Equestrian Games) en auk þess er einn kafli bókarinnar birtur veflægt sem heimildamynd um starf sjálfboðaliða á mótinu.

Rannsókninni sem bókin byggir á, var stýrt af Ferðamáladeild Háskólans á Hólum en ritstjórar bókarinnar eru Katherine Dashper, Guðrún Helgadóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir. Auk ritstjóra bókarinnar eru höfundar kafla innlendir og erlendir fræðimenn á sviði ferðamálafræða, viðburðastjórnunar, hestafræða, dýralækninga, hagfræði, viðskiptafræði ofl. auk aðila frá félags- og stoðkerfi hestamennskunnar. Að ritun bókarinnar komu fjölmargir einstaklingar frá Háskólanum á Hólum, s.s. fræðimenn Hestafræðideildar, Ferðamáladeildar og meistaranemar.

Bókin fæst á vefsíðu útgefanda og víðar í prentuðu formi og sem ePDF og ePub. Í takmarkaðan tíma er hægt að fá hana á 20% afslætti með að slá inn kóðann CCAB20.

Stutt heimildamynd um starf sjálfboðaliða á Landsmóti hestamanna á Hólum í Hjaltadal 2016.

Vefur útgefanda með frekari upplýsingum og aðgengi til að kaupa bókina.