Ráðstefna og doktorsnámskeið um rannsóknir í ferðamálum

Ferðamáladeild ásamt Rannsóknamiðstöð ferðamála og Háskóla Íslands héldu nýverið 29. Norrænu ráðstefnunni um rannsóknir í ferðamálum (29th Nordic Symposium in Tourism and Hospitality Research). Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni var „Shaping mobile futures: Challenges and possibilities in precarious times“. Var ráðstefnuþemað ákveðið áður en Covid-19 kom til sögunnar en það hélt vel gildi sínu þó ráðstefnunni væri frestað um eitt ár vegna faraldursins. Ráðstefnan var að þessu sinni haldin á netinu vegna aðstæðna.
Lykilfyrirlesarar voru Edward Huijbens frá Wageningen University, Penny Harvey frá University of Manchester og Outi Rantala frá University of Lapland. Þátttaka í ráðstefnunni var góð en nær 200 manns tóku þátt og voru umræður líflegar og fjölmörg áhugaverð erindi voru haldin. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna ásamt ágripum erinda má finna á vef Rannsóknamiðstöð Ferðamála
Í vísindanefnd ráðstefnunnar sátu Jessica Faustini Aquino og Laufey Haraldsdóttir og í stjórn ráðstefnunnar Ingibjörg Sigurðardóttir. Einnig skipulögðu Jessica og Laufey málstofu um menntun í ferðaþjónustu þar sem þær ásamt fleirum fjölluðu um þetta mikilvæga málefni. Meðal fyrirlesara var Deisi Trindade Maricato meistaranemi við Ferðamáladeild.
Í tengslum við ráðstefnuna er að jafnaði haldið námskeið fyrir doktorsnema. Að þessu sinni bar Háskólinn á Hólum ábyrgð á því ásamt samstarfsstofnunum. Umsjón með námskeiðinu höfðu Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Magnús Haukur Ásgeirsson. Einnig tóku Edward Huijbens og Outi Rantala þátt í kennslunni sem og Trude Furunes ritstjóri Scandinavian Journal of Hospitality and tourism . Alls tóku 14 doktorsnemar þátt en námskeiðið er metið til 5 ECTS eininga í PhD námi. Fyrir tilstyrk Menningarsjóðs Kaupfélags Skagfirðinga var haldinn veflægur kvöldverður með PhD nemum og kennurum. Þar kom m.a. fram ungt skagfirskt tónlistarfólk þau Malen Áskelsdóttir og Sigvaldi Helgi Gunnarsson og léku eigin lög.
Næsta ráðstefna verður haldin í borginni Porvoo í Finnlandi, sjá vef Nordic Symposium 2022.