Þroskun persónuleika hjá bleikju - Nýr rannsóknastyrkur frá Rannsóknamiðstöð Íslands

David Benhaïm
David Benhaïm

Fiskeldis- og fiskalíffræðideild fékk nýjan rannsóknastyrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) á dögunum. Verkefnið er leitt af David Benhaïm, sem er prófessor við deildina, og unnið í samvinnu við Paul Debes (HH), Katharinu Bremer (HH), Zophonías Jónsson (HÍ) og Violaine Colson (INRAE í Frakklandi). Rannsóknaverkefnið heitir “Þroskun persónuleika hjá bleikju” og miðar að því að skoða þroskun ólíkra þátta persónuleika hjá bleikju, og þá ferla sem liggja þar að baki. Persónuleiki dýra lýsir stöðugleika mismunandi atferlisþátta yfir tíma og ólíkar aðstæður, er að hluta undir áhrifum erfða, og getur mótast af aðstæðum snemma á lífsferlinum. Þetta er þverfaglegt verkefni sem nálgast viðfangsefnið út frá atferli, lífeðlisfræði, taugalíffræði, og sameindalíffræði. Verkefnið miðar að því að bæta þekkingu á velferð fiska með því að skoða ólíka eiginleika og þarfir einstaklinga frekar en hópinn eða stofninn í heild.