Útikennsla á Hólum með nemendum við Ferðamáladeild – fór fram 8. og 9. Maí 2024

skilti að tjaldstæði Hóla
skilti að tjaldstæði Hóla

Um allan Hólaskóg liggja göngustígar sem nemendur 1. ári í Ferðamáladeild Háskólans á Hólum hafa síðustu áratugi að mestu lagt og haldið við, ásamt því að Sjálfboðaliðar í Náttúruvernd frá Umhverfisstofnun hafa oft komið og aðstoðað.

 

Stundum koma svo einnig að viðhaldi stíganna nemendur við Grunnskólann Austan Vatna á Hólum og á Hofsósi. Í mörg ár og jafnvel áratugi hefur verið samstarf á milli skólastigana í útikennslu.

 

Fyrir stuttu hönnuðu og útfærðu nemendur við Ferðamáladeildina verkefni um náttúrutúlkun og framkvæmdu gönguferð í náttúrutúlkun inni í skóginum, þar sem áherslan var á að læra að tengja sig og sína gesta við gagnverk náttúrunnar. Nemendur unnu einnig að viðgerð og viðhaldi við stíganna, sér í lagi við að endurreisa skilti sem höfðu fallið niður, gera við þrep sem liggja að tjaldstæðinu inn í Hólaskógi og grisja aðalgönguleiðirnar. Þannig læra nemendur margt um hönnun og viðhald á náttúrustígum ásamt því að gefa til samfélagsins á Hólum með því að halda við dýrmætu stígakerfi sem nýtist íbúum Hóla og gestum sem heimsækja staðinn.

Náttúrutúlkunin og göngustígagerðin er hluti af námskeiðinu gönguferðir, leiðsögn og stígagerð og stór þáttur í verkefnum fyrsta árs nema til að fá landvarðaréttindi sem Umhverfisstofnun veitir.

Öll þessi vinna við stígagerð er þó ekki mögulega nema vegna þeirrar vinnu sem heimamenn og Skógræktarfélagið á Hólum hafa lagt í að saga niður tré, sem hafa fallið á stíga og grisja svo hægt sé að halda áfram að viðhalda og þar með nota það góða stígakerfi sem leiðir heimafólk og gesti inn á ævintýraheima skógarins, hvort sem er að sumri eða vetri.

  • Göngustígagerðin er ferli sem kallar á að hanna með náttúrunni - staldra við og sjá hvernig þetta virkar og ekki síst spyrja sig er verkið eins fallegt og náttúran sjálf.
  • Torf sótt í nærumhverfið og notað til að afmarka göngustíga og þrep - hér var glímd við frost í jörðu svo margar hendur vinna létt verk.
  • Skilti sem sést á mynd 1 lagfært - sterkari undirstöður settar niður og svo tyrft yfir þannig að það er eins og skilti standi á þúfu.
  • Náttúrutúlkun I - hér er verið að túlka birkitré - með birkireyktu hangikjöti

 

Hólar í Hjaltadal, 10. Maí. 2024

Kjartan Bollason, Lektor við Ferðamáladeild og kennari námskeiðsins gönguferðir, leiðsögn og stígagerð tók saman