Yfirlýsing frá Háskólanum á Hólum: Velferð hrossa er forgangsmál

Allir sem vinna við eða njóta samveru við hesta eiga að gera það af virðingu og með velferð dýranna að leiðarljósi. Háskólinn á Hólum leggur áherslu á mikilvægi menntunar og fræðslu til að tryggja góða meðferð og uppbyggilegar aðferðir við alla notkun og þjálfun hestsins. Það er nauðsynlegt að verklag og vinnubrögð við alla starfsemi sem við kemur hestum séu byggð á fagmennsku. Fréttir af slæmri meðferð blóðhryssna sem nú eru í brennidepli eru átakanlegar og tekur skólinn undir með fjölda samtaka og einstaklinga í hestamennskunni sem fordæma slíka meðferð og vilja að allt verði gert til að uppræta hana. Velferð hrossanna er og verður forgangsmál og jákvæð ímynd Íslenska hestsins þarf að vera í senn markmið okkar og stolt.