Ráðandi tungumál í ferðaþjónustu

Rannsóknarniðurstöður þeirra Önnu Vilborgar Einarsdóttur og Sigríðar Sigurðardóttur, lektora við Ferðamáladeild og Ágústu Þorbergsdóttur, sérfræðings hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um ráðandi tungumál í íslenskri ferðaþjónustu hafa sannarlega vakið eftirtekt.                                                                                              Niðurstaðan var sú að enska er fremur notuð en íslenska í markaðsetningu og kynningu hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum og þau taka fremur upp ensk nöfn en íslensk sem fyrirtækisnöfn. Þá hafa nokkur breytt íslensku nafni sínu í enskt. Þegar ekið er um vegi landsins hefur á undanförnum þremur árum verið greinileg fjölgun á skiltum sem auglýsa vörur eða afþreyingu frá ferðaþjónustuaðilum eru eingöngu á ensku þannig að enskuvæðingin hefur varla farið fram hjá neinum.

Fjölmiðlar hafa fjallað um þessar niðurstöður af og til í allt sumar og haust og nú síðast á RÚV, þann 29. nóv. í þætti Bergljótar Baldursdóttur, dagskrárgerðarmanns, Talaðu íslensku við mig. Í þættinum var m.a. talað við Bjarnheiði Hallsdóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar, sem tók undir áhyggjur rannsakenda af stöðunni og sagði „að Íslendingar gætu tapað sérstöðu sinni gagnvart ferðamönnum“ s.s. ef íslenska væri hvergi notuð á ferð þeirra um landið. Viðtalið við Bjarnheiði má finna á vef ruv.is 

Anna Vilborg Einarsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir

 

     

 Myndir: Sigríður Sigurðardóttir